Fréttir

Fréttir frá árinu 2007

07.12.2007

Greinargerð um samning íslenska ríkisins og Landsvirkjunar

Ríkisendurskoðun hefur sent forsætisnefnd Alþingis greinargerð sína um samning íslenska ríkisins og Landsvirkjunar um yfirtöku vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.  [meira]

29.11.2007

Ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna

Miðað við íbúafjölda leggja íslensk löggæsluyfirvöld árlega hald á meira magn ólöglegra fíkniefna á landamærum en flestar nágrannaþjóðir okkar. Engu að síður má efla eftirlit þeirra enn frekar og nýta betur þá fjármuni sem nú er varið til þess með því að herða reglur, bæta aðferðir við áhættustjórnun og auka samvinnu tollgæslu og lögreglu. Þá þurfa yfirvöld að þróa aðferðir til að meta árangur sinn.  [meira]

15.11.2007

XIX. Aðalþing INTOSAI

Dagana 5.-10. nóvember var XIX. Aðalþing INTOSAI haldið í Mexíkóborg. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar á þinginu voru þeir Jón Loftur Björnsson og Þórir Óskarsson. Þing þetta var mjög fjölsótt, enda eru aðildarstofnanir INTOSAI nú alls 188 og sendu margar þeirra fjölmennar sendinefndir. Auk þeirra mættu þar fulltrúar ýmissa alþjóðlegra stofnana og félaga, svo sem Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans (World Bank) og Alþjóðasamtaka endurskoðenda. Almennt þótti þingið velheppnað, enda skipulagning til mikillar fyrirmyndar, og afköst þess í formi saminna og samþykktra skjala óvenju mikil. [meira]

07.11.2007

St. Jósefsspítali - Sólvangur

Starfsemi St. Jósefsspítala - Sólvangs einkennist af faglegum metnaði og góðum starfsanda. Hins vegar var ekki staðið nógu vel að undirbúningi og framkvæmd sameiningar stofnananna árið 2006 og raunar má draga í efa að sameiningin hafi átt rétt á sér. Mikilvægt er að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið geri árangursstjórnunarsamning við spítalann þar sem fram komi hvaða verkefnum hann eigi að sinna. Þá þarf að endurskoða samkomulag spítalans við sérfræðilækna vegna ferliverka og herða eftirlit með því að þeir fari ekki fram úr þeim einingafjölda sem kveðið er á um í samningum við stofnunina.  [meira]

03.10.2007

Endurskoðun ríkisreiknings 2006

Mikill afgangur varð á rekstri ríkissjóðs árið 2006 og styrktist staða höfuðstóls hans verulega. Veginn launakostnaður ríkisins jókst einnig heldur minna en gert var ráð fyrir. Þá er umhirða ríkisstofnana um bókhaldsgögn almennt í góðu lagi. Mikilvægt er hins vegar að stofnanir fylgi þeim áætlunum sem felast í fjárlögum hvers árs. Þá er eðlilegt að fyrirtæki sem ekki eru í rekstri en fá áætlanir í virðisaukaskatti verði tekin af fyrirtækjaskrá.  [meira]

07.09.2007

Þjónustusamningur um Heilbrigðisstofnun Suðausturlands

Framkvæmd þjónustusamnings heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við Sveitarfélagið Hornafjörð um heilsugæslu og öldrunarþjónustu getur ekki að öllu leyti talist fullnægjandi. Heilbrigðisstofnun Suðausturlands hefur t.d. ekki sett sér gæða- og þjónustumarkmið og ráðuneytið hefur ekki heldur þrýst fast á hana að gera það. Vegna ófullnægjandi mælinga á magni og gæðum þeirrar þjónustu sem heilbrigðisstofnunin veitir er óvíst hvort fjárhagslegum hagsmunum ríkisins sé betur borgið með nýjum þjónustusamningi en ef ríkið annaðist sjálft reksturinn. [meira]

21.08.2007

Viðbrögð Ríksendurskoðunar við ummælum fjármálaráðherra vegna kaupa á nýrri Grímseyjarferju

Í nýlegri greinargerð um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju gagnrýndi Ríkisendurskoðun þá aðferð sem stjórnvöld notuðu við að fjármagna kaup og endurbætur á hinni nýju ferju. Í viðtali við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu hinn 17. ágúst sl., vísar hann þessari gagnrýni Ríkisendurskoðunar á bug. Í þessu sambandi bendir fjármálaráðherra á að heimild sé fyrir kaupum á nýrri ferju í 6. gr. fjárlaga 2006 og 2007. Haft er eftir fjármálaráðherra að þetta sé heimild fyrir hvoru tveggja, að selja ferjuna Sæfara og kaupa nýja ferju. Það sé algengt að van- eða ónýttar heimildir séu nýttar til annarra framkvæmda sem heimildir eru fyrir í fjárlögum. Það hafi verið gert í þessu tilfelli og slíkt verklag sé viðurkennt og hafi verið það lengi. Jafnframt segir fjármálaráðherra að starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafi vitað það fyrir ¿að framkvæmdum er flýtt og fjármunir færðir á milli liða þegar aðrar framkvæmdir tefjast og ekki er hægt að nýta fjármuni í þær¿, eins og... [meira]

15.08.2007

Athugasemdir Ríksendurskoðunar vegna greinargerðar um Grímseyjarferju

Vegna yfirlýsingar sveitarstjórnar Grímseyjarhrepp vill Ríkisendurskoðun koma eftirfarandi á framfæri. [meira]

15.08.2007

Framkvæmd fjárlaga árið 2006

Í lok árs 2006 voru um tveir af hverjum þremur fjárlagaliðum í A-hluta ríkisins annaðhvort með of- eða vannýttar heimildir umfram 4% vikmörk reglugerðar um framkvæmd fjárlaga. Ríkisendurskoðun gagnrýnir agaleysið sem þetta vitnar um og má bæði rekja til forstöðumanna einstakra stofnana og stjórnenda þeirra ráðuneyta sem þær heyra undir. [meira]

14.08.2007

Kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju

Rekja má mörg þeirra vandamála sem upp hafa komið við endurnýjun Grímseyjarferju til ófullnægjandi undirbúnings áður en kaup voru gerð. Nákvæmari greining á þörf, kostnaði og ábata og ítarlegri skoðun á þeirri ferju sem keypt var hefðu skipt verulegu máli þegar mögulegir kostir voru vegnir og metnir. Þá stenst sú aðferð að fjármagna kaup og endurbætur ferjunnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar engan veginn ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu. [meira]

14.06.2007

Athugasemdir Ríkisendurskoðunar vegna umræðu um skýrsluna "Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu"

Vegna opinberrar umfjöllunar um skýrslu Ríkisendurskoðunar "Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu" vill stofnunin taka eftirfarandi fram. [meira]

12.06.2007

Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu

Mikilvægt er að stjórnvöld menntamála taki skýrari afstöðu til þess en hingað til hvernig verja á kennsluframlögum til háskóla og taki þá m.a. mið af þjóðhagslegri hagkvæmni námsgreina og æskilegri dreifingu kennslu milli skóla. Einnig þarf að finna leiðir til að draga úr brottfalli nemenda ríkisrekinna háskóla. Þá þurfa stjórnvöld að setja lágmarkskröfur um menntunarstig háskólakennara og rannsóknarvirkni.  [meira]

05.06.2007

Nýtt símanúmer Ríkisendurskoðunar: 569 7100

Vakin er athygli á því að Ríkisendurskoðun hefur fengið nýtt símanúmer: 569 7100. Jafnframt hafa orðið ýmsar breytingar á beinum símanúmerum einstakra starfsmanna. [meira]

24.05.2007

Kínverski ríkisendurskoðandinn heimsækir Ísland

Kínverski ríkisendurskoðandinn, Hr. Li Jinhua, heimsækir Ísland nú í vikunni ásamt sex manna fylgdarliði. Heimsóknin er í boði Ríkisendurskoðunar og er liður í þeirri viðleitni að treysta tengsl stofnananna og miðla þeim aðferðum og vinnubrögðum við endurskoðun opinberra aðila sem talin eru henta best hverju sinni.  [meira]

23.03.2007

Reglur um reikningshald stjórnmálasamtaka

Samkvæmt lögum nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, er Ríkisendurskoðun ætlað að gefa út leiðbeiningarreglur um reikningshald þessara aðila. Ríkisendurskoðun hefur lokið við gerð þessara reglna og birtast þær hér með. [meira]

22.03.2007

Vinnueftirlit ríkisins. Stjórnsýsluúttekt

Vinnueftirlit ríkisins hefur frá árinu 1981 gegnt lykilhlutverki í vinnuvernd hér á landi. Stofnunin hefur staðið sig með ágætum við að fræða og upplýsa á því sviði og ætti að leggja aukna áherslu á slíkt á komandi árum. Auk þess er mikilvægt að hún forgangsraði verkefnum þannig að hún einbeiti sér að stjórnsýslu og leiðandi verkefnum á sviði vinnuverndar en dragi sig út úr sérhæfðri þjónustu sem aðrir aðilar eru færir um að veita. [meira]

19.03.2007

Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér ársskýrslu sína fyrir árið 2006. Auk formála ríkisendurskoðanda, þar sem horft er til liðins árs og komandi tíðar, er meðal annars gerð grein fyrir hlutverki og markmiðum stofnunarinnar, starfseminni árið 2006 og þeim lykiltölum um umsvif og árangur sem stofnunin tekur einkum mið af þegar hún metur störf sín. Þá fylgir með sundurliðaður ársreikningur stofnunarinnar. [meira]

16.03.2007

Skuldbindandi samningar ráðuneyta og styrkveitingar ríkissjóðs á árinu 2006

Í þessari greinargerð Ríkisendurskoðunar eru teknar saman upplýsingar um skuldbindandi samninga sem íslenska ríkið gerði árið 2006 við aðila utan kerfisins sem veita þriðja aðila þjónustu, fjölda þeirra og fjárhæðirnar sem þeir fela í sér. Jafnframt er gerð grein fyrir því verklagi sem notað er við ákvörðun og eftirlit með samningunum. Að lokum setur Ríkisendurskoðun fram ábendingar sínar um æskilegt vinnulag í þessu samhengi.  [meira]

15.01.2007

Greinargerð um fjármál Byrgisins ses.

Að beiðni félagsmálaráðuneytisins hefur Ríkisendurskoðun gert athugun á fjármálum meðferðarheimilisins Byrgisins ses. Meginmarkmið þessarar athugunar var tvíþætt: Annars vegar að kanna hvort allar tekjur Byrgisins árin 2005 og 2006, hvort heldur þær runnu frá opinberum aðilum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða einstaklingum, hafi skilað sér að fullu í bókhaldi heimilisins. Hins vegar að kanna hvort öll útgjöld Byrgisins hafi verið færð í bókhaldi, hvort gerð sé fullnægjandi grein fyrir þeim og hvort þau geti talist eðlileg með tilliti til starfseminnar. [meira]

12.01.2007

Málefni Byrgisins

Vegna fyrirspurna vill Ríkisendurskoðun koma því á framfæri að greinargerð stofnunarinnar um fjármál Byrgisins ses. verður afhent viðkomandi stjórnvöldum næstkomandi mánudag, 15. janúar. Hún verður svo send fjölmiðlum síðar þann sama dag. [meira]