Birting fjárhagsendurskoðunarskýrslna

Almennt

07.11.2017

Ríkisendurskoðun birtir nú fjárhagsendurskoðunarskýrslur stofnana í A-hluta ríkissjóðs á vef sínum.

Nú þegar hafa 20 skýrslur verið birtar og mun þeim fjölga  á næstu vikum. Bent er á að ekki eru skrifaðar árlegar endurskoðunarskýrslur um allar stofnanir A-hluta ríkissjóðs.

Niðurstaða endurskoðunar einstakra stofnana hefur hingað til einungis verið send viðkomandi stofnun, ráðuneyti, fjárlaganefnd Alþingis og Fjársýslu ríkisins. Með gildistöku nýrra laga nr. 46/2017 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er gerð ríkari krafa á Ríkisendurskoðun en áður um upplýsingagjöf, þar á meðal um birtingu endurskoðunarskýrslna nema um sé að ræða málefni sem leynt skal fara samkvæmt lögum eða opinberir hagsmunir eða einkahagsmunir standi því í vegi.

Ríkisendurskoðun mun ekki senda út fréttatilkynningar við birtingu hverrar fjárhagsendurskoðunarskýrslu, líkt og tíðkast við birtingu niðurstaðna stjórnsýsluendurskoðunar, þar sem endurskoðunarskýrslur vegna fjárhagsendurskoðunar eru heldur fleiri en skýrslur vegna stjórnsýsluendurskoðunar. Til að auðvelda aðgengi að skýrslunum eru þær flokkaðar eftir málaflokki hverrar stofnunar. Einnig er bent á leitargluggann á forsíðu vefsins en með því að slá inn heiti ákveðinnar stofnunar má finna allar skýrslur sem Ríkisendurskoðun hefur birt um þá stofnun.

Í endurskoðunarskýrslum er fjallað um niðurstöður Ríkisendurskoðunar við endurskoðun  stofnunar, ábendingar um hvað betur megi fara og þær athugasemdir sem gerðar eru. Viðbrögð stofnana við athugasemdum, eftir því sem við á, eru birt í sérstökum kafla. Í endurskoðunarskýrslum er almennt fjallað er um fjárheimildir og rekstur, innra eftirlit, fylgni við lög og reglur, endurskoðun rekstrarliða og endurskoðun efnahagsliða.

Sjá nánar útgefið efni

Mynd með frétt