Styðja þarf betur við nýsköpun í ríkisrekstri

Skýrsla til Alþingis

29.05.2017

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að fjármála- og efnahagsráðuneyti efli stuðning og fræðslu um nýsköpun í opinberum rekstri.

Þá er ráðuneytið hvatt til að beita sér með markvissum hætti fyrir auknu samstarfi þeirra stofnana sem hafa byggt upp þekkingu á nýsköpun og auka aðkomu þeirra að nýsköpun ríkisaðila. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar Nýsköpun í ríkisrekstri: Umhverfi, hvatar og hindranir.

Nýsköpun hefur fengið aukið vægi í opinberum rekstri síðustu áratugi. Aðkoma ríkisins slíkum umbóta- og þróunarverkefnum er þó um margt tilviljana- og brotakennd. Fjármála- og efnahagsráðuneyti ber ábyrgð á þessum málaflokki en hefur hvorki markað heildstæða stefnu um hann né áformar slíka stefnumótun. Af ráðuneytum Stjórnarráðsins hefur einungis velferðarráðuneyti sett sér stefnu um nýsköpun á málefnasviðum sínum. Þá hefur fjármála- og efnahagsráðuneyti stutt nýsköpunarstarf stofnana sinna í með viðbótarfjárframlögum.

Um 80% þeirra forstöðumanna sem tóku þátt í könnun Ríkisendurskoðunar um nýsköpun í árslok 2016 töldu sig hafa unnið að nýsköpun í starfi stofnunar sinnar. Rúmlega þriðjungur forstöðumanna sagðist hafa fengið tilmæli eða hvatningu til að sinna nýsköpun frá ráðuneyti sínu en einungis fjórðungur þeirra sagðist hafa fengið beinan stuðning þess. Flestir töldu að nýsköpunarverkefnin hefðu skilað árangri í formi aukinnar skilvirkni, betri þjónustu og aukinnar starfsánægju. Enn skortir þó á að slíkur árangur sé metinn á hlutlægan hátt. Fjármála- og efnahagsráðuneyti er því  hvatt til að taka forystu á þessu sviði til hagsbóta fyrir hið opinbera.

Sjá nánar

Mynd með frétt