Athugasemdir við ráðningarferli orkubússtjóra

Skýrsla til Alþingis

13.10.2016

Starfsháttum stjórnar Orkubús Vestfjarða ohf. var um margt ábótavant við ráðningu nýs orkubússtjóra vorið 2016 og bendir Ríkisendurskoðun á mikilvægi þess að hún fylgi þeim lögum og reglum sem gilda um félagið.

Stjórn og stjórnendur Orkubúsins eru hvattir til að efla traust og trúverðugleika á félaginu sem stefnt var í hættu með því verklagi sem var viðhaft í ráðningarferlinu og með því að fylgja ekki lögum um félagið þegar samþykktum þess var breytt árið 2014 til að fækka varamönnum í stjórn. Þá er fjármála- og efnahagsráðuneyti hvatt til þess að koma samskiptum sínum við stjórn Orkubús Vestfjarða í formlegri farveg.

Í nýrri stjórnsýsluúttekt sinni gerir Ríkisendurskoðun ekki athugasemd við launað námsleyfi fyrrum orkubússtjóra en telur eðlilegt að um slík leyfi verði settar fastmótaðar reglur, m.a. um lengd þeirra. Eins telur stofnunin ekki á verk­sviði sínu að meta hvort hæfasti umsækjandi var valinn þegar nýr orkubússtjóri var ráðinn.

Stofnunin finnur hins vegar að því að stjórn Orkubús Vestfjarða hafi hvorki virt eigin áætlun um ráðningarferli nýs orkubússtjóra né eigin starfsreglur um undirbúning og ákvarðanatöku. Endanleg ákvörðun um ráðningu hafi ekki verið á dagskrá þess fundar þegar ákvörðun var tekin og almennt hafi fundarmönnum ekki gefist færi á að kynna sér til hlítar þau málsgögn sem lágu fyrir. Eins hafi láðst að skrá eða halda utan um upplýsingar og gögn sem varða ákvarðanatöku stjórnar. Loks fari ákvörðun formanns stjórnar um að hafna kröfu annars stjórnarmanns um bókun í bága við starfs­regl­ur stjórnar og ákvæði hluta­félagalaga.

Ríkisendurskoðun fær ekki heldur skilið hvernig það gat gerst að stjórn Orkubúsins hvatti til þess, með vitund og aðkomu fjármála- og efnahags­ráðu­neytis, að samþykktum félagsins yrði breytt á þann veg að aðeins einn varamaður yrði skipaður í stjórn Orkubúsins í stað fimm eins og lög um félagið kveða skýrt á um. Þessi breyting hefur þegar verið tekin til baka.

Af gögnum málsins má ráða að stjórn Orkubúsins hafi fallist á það að ýmis mis­tök hafi átt sér stað í ráðningarferlinu og að starfshættir verði í framhaldinu teknir til skoð­unar.

Sjá nánar