Skaðabótaskylda vegna útboðs um endurskoðun Ríkisútvarpsins

Almennt

09.02.2021

Kærunefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisendurskoðun og Ríkisútvarpið séu skaðabótaskyld gagnvart Grant Thornton endurskoðun ehf. vegna útboðs um ársreikninga Ríkisútvarpsins, móðurfélags og samstæðu. Um örútboð innan rammasamnings var að ræða og skiluðu sjö aðilar inn tilboðum þar sem tilboð Advant endurskoðunar var lægst. Tilboð Advant var 30% lægra en næstlægsta tilboð, frá Grant Thornton, auk þess sem fjárhæð þess var mun lægri en það sem Ríkisútvarpið hafði greitt fyrir endurskoðun árin á undan, en þess ber að geta að Advant hafði séð um endurskoðun Ríkisútvarpsins á því tímabili. Í ljósi þessa var kallað eftir nánari skýringum á tilboði Advant og að þeim fengnum og að höfðu samráði við Ríkiskaup og Ríkisútvarpið var gengið til samninga við félagið á grundvelli útboðsins.  

Grant Thornton kærði framangreinda ákvörðun til kærunefndar útboðsmála þar sem félagið taldi að þátttakendur í örútboðinu hafi ekki fengið upplýsingar sem skiptu máli við tilboðsgerð og Advant bjó yfir vegna fyrri starfa sinna fyrir Ríkisútvarpið. Kærunefnd útboðsmála tók undir framangreind sjónarmið og segir eftirfarandi í niðurstöðu nefndarinnar: 

„Af fyrrgreindu virtu í heild verður ráðið að Advant endurskoðun ehf. hafi búið yfir frekari upplýsingum um hin boðnu kaup en aðrir bjóðendur sökum fyrri starfa sinna fyrir varnaraðila Ríkisútvarpið ohf. Ekki lágu því allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir öðrum bjóðendum í hinu kærða örútboði.“ 

Samkvæmt úrskurðinum miðast fjárhæð skaðabóta við þann kostnað sem leiddi af þátttöku Grant Thornton í útboðinu og um er um solidariska ábyrgð Ríkisendurskoðunar og Ríkisútvarpsins að ræða. Þá ber Ríkisendurskoðun jafnframt að greiða málskostnað kæranda.   

Úrskurðinn má nálgast á vef Stjórnarráðsins

Mynd með frétt