Áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á ríkisfjármál

Skýrsla til Alþingis

17.02.2021

Ríkisendurskoðun hefur lokið við þriðju skýrslu embættisins um afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveiru fyrir íslenskt samfélag, að þessu sinni um áhrif faraldursins á ríkisfjármál. Skýrslunni var skilað til fjárlaganefndar Alþingis í byrjun desember 2020 og hefur að geyma yfirlit yfir efnahagsaðgerðir stjórnvalda og fjáraukalög samþykkt til þess tíma ásamt samantekt um áhrif faraldursins á tekjur og útgjöld ríkissjóðs og ríkisaðila og á efnahag ríkissjóðs, þ.m.t. ábyrgðir. Upplýsingar í skýrslunni ná almennt til fyrstu 8 – 10 mánaða ársins 2020 eða þær bestu opinberu upplýsingar og hagtölur sem fáanlegar voru á vinnslutíma hennar. 

Í skýrslunni kemur m.a. fram að afkoma af rekstri ríkissjóðs var farin að dragast saman áður en faraldurinn skall á, fyrst og fremst vegna aukinna útgjalda. Undirstrikað er að mikil áskorun bíður stjórnvalda á komandi árum við að draga úr hallarekstri og greiða niður skuldir til að endurheimta jafnvægi í efnahagsmálum. Efnahagsúrræði stjórnvalda hafa verið hugsaðar sem tímabundnar ráðstafanir en þanþol ríkisins er háð takmörkunum þegar fram í sækir. Komi til hækkunar á fjármögnunarkostnaði getur vaxtabyrði ríkissjóðs fljótt takmarkað svigrúm til annarra útgjalda. Neikvæð gengisþróun og hækkandi skuldir geta þannig haft miklar afleiðingar fyrir afkomu ríkissjóðs. Telur Ríkisendurskoðun að leita verði allra leiða til hagræðingar og aukinnar skilvirkni á útgjaldahlið ríkisfjármálanna samhliða mótvægisaðgerðum til stuðnings heimilum og fyrirtækjum 

Í skýrslunni áréttar Ríkisendurskoðun að gæta verður festu og ábyrgðar í ríkisfjármálunum á komandi misserum til að tryggja ríkissjóði sjálfum viðspyrnu og sjálfbærni þegar efnahagslífið getur tekið við sér á ný. 

Ríkisendurskoðun mun áfram leggja áherslu á samtímaeftirlit með fjárreiðum ríkisins og meðferð opinberra fjármuna og hyggst fylgja þessari skýrslu eftir á komandi mánuðum. Jafnframt er von á fleiri skýrslum frá Ríkisendurskoðun um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á ríkisfjármál og eftirfylgni hvað varðar hin ýmsu efnahagsúrræði stjórnvalda. 

Sjá nánar

Mynd með frétt