Úttekt um Wow air kynnt

Skýrsla til Alþingis

20.04.2021

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að starfsemi og rekstri Wow air hf. í aðdraganda gjaldþrots flugfélagsins í mars 2019 og eftir það. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu niðurstöður úttektarinnar á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fyrr í dag og hefur skýrslan nú verið birt á vef embættisins.

Ekki verður annað séð en að eftirlit Samgöngustofu með flugöryggi hjá Wow air hf. hafi verið í fyrirrúmi. Tæpir fjórir mánuðir liðu frá því Samgöngustofa og samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðuneyti voru upplýst um vandræði flugfélagsins í maí 2018 þar til Samgöngustofu réðst í sérstakt eftirlit með fjárhag Wow air hf. og þá að undangengnum beinum fyrirmælum ráðuneytisins um að hefjast handa um slíkt eftirlit. Það er mat Ríkisendurskoðunar að of seint hafi verið brugðist við í ljósi þess hve staða félagsins var þá þegar orðin tvísýn.

Stjórnendur Isavia ohf. héldu stjórn félagsins vel upplýstri um vaxandi rekstrarvanda Wow air h/f. Stjórnin vann út frá þeirri forsendu að fullnægjandi tryggingar væru fyrir skuldum flug­félagsins með kyrrsetningu loftfars á þess vegum. Að mati Ríkisendurskoðunar voru greiðslu­frestir og lánakjör Wow air með þeim hætti að ekki var um óeðlilega ríkisaðstoð að ræða þar sem vextir voru miðaðir við markaðskjör.

Skýrslan hefur nú verið birt á vef Ríkisendurskoðunar og má nálgast hér

Mynd með frétt