Úttekt á Menntamálastofnun lokið

Skýrsla til Alþingis

20.04.2021

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á Menntamálastofnun. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.

Að mati Ríkisendurskoðunar er enn of snemmt að leggja afgerandi mat á árangur sameiningar Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar árið 2015 og þau samlegðaráhrif sem Mennta­málastofnun átti að hafa. Það er mat þeirra hagsmunaaðila sem Ríkisendurskoðun ræddi við að um faglega stofnun sé að ræða sem búi yfir mikilli sérþekkingu.

Ríkisendurskoðun telur að bæta þurfi stjórnun Menntamálastofnunar og tryggja skilvirka og góða fjármála- og mannauðsstjórn. Mennta- og menningarmálaráðuneyti þarf að sinna betur fjárhagslegu og faglegu eftirliti með stofnuninni. Mikilvægt er að þessir aðilar fari sameiginlega yfir starfsemina en þeir hafa nú ólíka sýn á fjárþörf hennar og umfang verkefna. Ráðuneytið þarf að hafa virkara samráð við Menntamálastofnun í stefnumótunar­vinnu sinni og þegar henni er falið aukið hlutverk og ný verkefni. Hlutverk stofnunarinnar þarf að skýra betur í lögum eða með setningu reglugerðar.

Menntamálastofnun er ætlað að vera mennta- og menningarmálaráðuneyti til aðstoðar og ráðgjafar við undirbúning laga, reglugerða og aðalnámskráa á sviði menntamála. Sú ráðgjöf hefur ekki verið sem skyldi því samskipti á milli ráðuneytis og stofnunar hafa ekki verið nægileg. Það er mat Ríkisendurskoðunar að ekki hafi náðst að skerpa og styrkja stjórnsýslu menntamála eins og til stóð með lögfestingu laga um Menntamálastofnun.

Sjá nánar skýrslu um Menntamálastofnun

Mynd með frétt