Úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða

Skýrsla til Alþingis

21.02.2022

Ríkisendurskoðun hefur nú lokið úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða. Fulltrúar embættisins kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.

Rafræn tollafgreiðsla hóf göngu sína árið 1988 og var hlutfall rafrænna innflutningsskýrslna árið 2020 komið í 99,5%. Innflutningur hefur stóraukist á undanförnum árum og í breyttu viðskiptaumhverfi hefur krafan um hraða afgreiðslu enn fremur aukist. Þetta hefur leitt til þess að í auknum mæli hefur dregið úr beinu eftirliti við tollafgreiðslu og byggist eftirlit því nú að mestu á skipulagðri tollendurskoðun.

Á tollasviði Skattsins störfuðu 141 starfsmaður þann 1. desember 2020, þar af voru þrír starfsmenn í tollendurskoðunardeild.

Það er álit Ríkisendurskoðunar að á undanförnum árum hafi dregið úr getu endurskoðunardeildar til að fást við stærri og flóknari mál sem hefur hindrað að tollyfirvöld geti með forvirkum hætti rækt hlutverk sitt sem skyldi. Telur Ríkisendurskoðun því að endurskipuleggja og efla þurfi tollasvið Skattsins svo unnt sé að sinna lögbundnu hlutverki og verkefnum af fullum krafti. Enn fremur beinir Ríkisendurskoðun því til Skattsins að vöruskoðun landbúnaðarafurða verði gerð víðtækari og að viðvarandi verkefni tollasviðs Skattsins.

Ríkisendurskoðun ítrekar að gríðarleg sóknarfæri eru til uppfærslu á tölvukerfi tollasviðs en jafnframt er bent á mikilvægi þess að setja þurfi gæði gagna og áskoranir þeim tengdum í sem mestan forgang.

Áskoranir hafa verið miklar við tollflokkun ýmissa landbúnaðarvara en Ríkisendurskoðun telur að ólík sjónarmið innan Skattsins í slíkum málum hafi ekki verið samræmd og ekki hafi verið leitað til erlendra samstarfsaðila og alþjóðastofnana til leiðsagnar og samræmis svo sem brýnt er.

Skýrslan hefur nú verið birt á vef Ríkisendurskoðunar og má nálgast hér

Mynd með frétt