Skil á ársreikningum kirkjugarða óviðunandi

Kirkjugarðar og sóknir

13.02.2023

Ríkisendurskoðun hefur nú birt útdrátt úr ársreikningum kirkjugarða fyrir rekstrarárið 2021. Ríkisendurskoðun hefur haft eftirlit með ársreikningum kirkjugarða frá og með árinu 1993, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Kirkjugarðsstjórnum er skylt að senda ársreikninga kirkjugarða næstliðins árs til stofnunarinnar fyrir 1. júní ár hvert.   

Í hinum níu prófastsdæmum landsins eru 237 kirkjugarðar sem skila eiga ársreikningum til Ríkisendurskoðunar vegna rekstrarársins 2021. Í lok desember 2022 höfðu stofnuninni borist ársreikningar frá 128 kirkjugörðum og höfðu því um 54% ársreikninga borist rúmum sex mánuðum eftir eindaga skila. Skil ársreikninga kirkjugarða hafa farið stigversnandi síðastliðin ár og eru að mati Ríkisendurskoðunar óviðunandi. Skilin voru um 76% vegna rekstrarársins 2020 og um 82% vegna rekstrarársins 2019.

Ríkisendurskoðun vekur athygli á að kirkjugarðsgjöld vegna þeirra kirkjugarða sem skiluðu ársreikningi vegna rekstrarársins 2020 námu 998.586.351 kr. en eru í innkomnum ársreikningum fyrir rekstrarárið 2021 samtals 394.932.534 kr. Skýringuna má rekja til þess að lang stærsti kirkjugarður landsins, Kirkjugarðar Reykjavíkur, sem voru með um 60% af kirkjugarðsgjöldum vegna rekstrarársins 2020 hafa ekki skilað ársreikningi fyrir 2021.

Sjá nánar skýrslu um skil ársreikninga kirkjugarða fyrir árið 2021

Mynd með frétt