Bæta þarf eftirlit Matvælastofnunar

Skýrsla til Alþingis

16.11.2023

Ýmislegt í starfsemi og starfsumhverfi Matvælastofnunar má bæta til að ná fram betri árangri í eftirliti stofnunarinnar með velferð búfjár. Meðal þess er að MAST þarf að leggja aukna áherslu á að stjórnsýsluleg framkvæmd verði ekki á kostnað velferðar dýra, stofnunin þarf að huga betur að innri og ytri upplýsingagjöf, virkja betur samstarfsráð sitt, bæta samskipti og samstarf við hagaðila og byggja upp aukið traust. Þá þarf MAST að þróa skipulag, verklag og framkvæmd eftirlits nánar og beita áhættu- og frammistöðumati í meira mæli en gert er. 

Stjórnvöld þurfa að setja skýra stefnu um með hvaða hætti kröfur um dýravelferð eigi að fylgja þróun í evrópskum rétti. Þá hefur gjaldskrá stofnunarinnar ekki fylgt raunkostnaði við eftirlit í lengri tíma með neikvæðum áhrifum á starfsemina. Stjórnvöld þurfa að bæta þar úr. 

Þetta kemur fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit Matvælastofnunar með velferð búfjár sem embættið kynnti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag.

Í skýrslunni eru lagðar fram sjö ábendingar til Matvælastofnunar sem snúa að því að stofnunin leggi meiri áherslu á að dýr njóti vafans með hliðsjón af markmiðum laga um velferð dýra, þrói frekar verklag um áhættu- og frammistöðumat, efli gæðastjórnunarkerfi, endurskoði gerð eftirlitsáætlana, tryggi betri yfirsýn með vöktun frávika, bæti ímynd sína og efli lögbundið samráð og samstarf við hagaðila. Sex ábendingum er beint til matvælaráðuneytis. Þær snúa að því að skýra þurfi stefnu um samræmi við erlendar kröfur, endurmeta þurfi kröfur um tilkynningarskylt dýrahald og endurskoða þurfi ábyrgð á skipan yfirdýralæknis, starfsemi og hlutverk fagráðs um velferð dýra, aðkomu ráðuneytisins að innri úttektum og gjaldskrá MAST. 

Sjá nánar skýrslu: Matvælastofnun, eftirlit með velferð búfjár
 

Mynd með frétt