Efla þarf breytingastjórnun innan Stjórnarráðsins og bæta yfirsýn

Skýrsla til Alþingis

11.12.2023

Forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti þurfa að efla miðlæga verkstjórn og setja skýrari viðmið og verkferla innan Stjórnarráðs Íslands áður en ráðist verður í frekari breytingar á skipulagi þess. Mikilvægt er að Stjórnarráðið búi yfir sveigjanleika til að takast á við breytingar eins og þær sem ráðist var í eftir Alþingiskosningar 2021 en ljóst er að Stjórnarráðið var ekki nægilega vel undirbúið fyrir svo mikla uppstokkun stjórnarmálefna. 

Þetta kemur fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar á undirbúningi og framkvæmd breytinga á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem tóku gildi 1. febrúar 2022.  Embættið kynnti skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag. 

Í úttektinni kemur fram að breytingarnar hafi m.a. skapað rými til að innleiða nýtt skipulag í ráðuneytum og nýja vinnustaðamenningu. Þær hafi gefið tækifæri til að nálgast stefnumótum með öðrum hætti og ráðast í nauðsynlegar breytingar á skipulagi. Ráðuneyti áttu almennt gott samstarf um breytingarnar en samningagerð um tilfærslu fjárheimilda og starfsfólks reyndist oft tímafrek. Umfang breytinganna og fyrirvaralaus gildistaka þeirra kom mörgum ráðuneytum á óvart. 

Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar að ekki hafi verið gefinn nægur tími til undirbúnings vegna flutnings verkefna og fjárheimildum þeim tengdum. Dæmi eru um að sum ráðuneyti hafi skort fullnægjandi yfirsýn um fjármál sín og undirstofnana í tæp tvö ár. Sum hafi skort nauðsynlega þekkingu og getu til að hafa umsjón með fjárheimildum málefnasviða. 

Ráðuneytin fengu ýmsa leiðsögn frá forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti í breytingaferlinu en ljóst er að betur hefði mátt undirbúa og styrkja stoðeiningarnar Fjársýslu ríkisins og Umbru – þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins. Mikilvægt er að ráðuneyti hafi fullan aðgang að öllum fjárhagsupplýsingum um sín verkefni og stofnanir við gildistöku breyttrar skipan Stjórnarráðsins.

Sjá nánar: Breytingar á stjórnarmálefnum ráðuneyta
 

Mynd með frétt