Enn ríkir ófremdarástand í skilum ársreikninga sjóða og sjálfseignarstofnana

Staðfestir sjóðir og stofnanir

22.12.2023

Ríkisendurskoðun hefur nú birt útdrátt úr ársreikningum sjálfseignarstofnana og sjóða sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Alls bar 684 sjóðum og stofnunum að skila ársreikningi til Ríkisendurskoðunar fyrir rekstrarárið 2022. Í desember 2023 höfðu 388 staðfestir sjóðir og stofnanir uppfyllt þessa skyldu en ársreikningar 296 sjóða og stofnana höfðu ekki borist embættinu. Höfðu því um 57% ársreikninga borist tæpum sex mánuðum eftir eindaga skila. Þá vekur athygli að 38 virkir sjóðir hafa aldrei skilað ársreikningi til embættisins þrátt fyrir árvissar ítrekanir þar um.

Ríkisendurskoðun lítur þetta alvarlegum augum og ítrekar ábendingu sína frá fyrra ári þess efnis að í nýjasta áhættumati Ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka, sem gefið var út í mars árið 2021, er sérstaklega fjallað um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og ófullnægjandi skil þeirra á ársreikningum síðustu ár. Í áhættuflokkun Ríkislögreglustjóra er áhættan af því að slíkar stofnanir eða sjóðir verði notaðar til að þvætta ólögmætan ávinning metin veruleg.

Ríkisendurskoðun hefur undanfarin ár vakið athygli stjórnvalda á slælegum skilum sjóða og sjálfseignarstofnana en skilin hafa farið stigversnandi síðastliðin ár.

Sjá nánar skýrslu um skil ársreikninga staðfestra sjóða og stofnana fyrir árið 2022

Mynd með frétt