Stefnu- og forystuleysi þrátt fyrir vaxandi ópíóíðavanda

Skýrsla til Alþingis

20.03.2024

Stefnu- og forystuleysi ríkir í málefnum er varða ópíóíðafíkn og fíknivanda almennt. Þannig hefur ekkert ráðuneyti skýra forystu í málaflokknum. Ótvírætt er að ópíóíðavandi er fyrst og fremst viðfangsefni heilbrigðisráðuneytis sem ber að taka skýra forystu. Ekki hefur verið í gildi stefna í áfengis- og vímuvörnum frá því að eldri stefna rann sitt skeið árið 2020. Sú stefna var ekki útfærð með aðgerðaáætlun eða tímasettum markmiðum og kom því aldrei að fullu til framkvæmdar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar Ópíóíðavandi: Staða ‒ stefna ‒ úrræði sem kynnt var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag.

Framboð meðferðar byggir ekki á opinberri stefnumótun eða mati á þörf fyrir heilbrigðis- og meðferðarþjónustu heldur hefur að mestu mótast af og verið á ábyrgð grasrótar- og félagasamtaka og heilbrigðisstofnana á þeirra vegum. Ákveðnir hópar fá ekki þjónustu við hæfi, m.a. vegna þess að bráðaþjónusta fyrir fíknisjúka er af skornum skammti, og ýmsar hindranir koma í veg fyrir að einstaklingar fái tímanlega aðstoð við aðkallandi fíknivanda. Skýrari ramma vantar um viðhaldsmeðferð og skaðaminnkandi þjónustu vegna ópíóíðafíknar. Þá ríkir ágreiningur milli SÁÁ og SÍ um túlkun og skilgreiningar í samningi um lyfjameðferð við ópíóíðafíkn en ljóst er að mun fleiri fá lyfjameðferð en samningurinn gerir ráð fyrir. 

Enginn hefur fulla yfirsýn um þann fjölda sem glímir við ópíóíðavanda og misræmis gætir í upplýsingum. Þótt ekki sé rétt að tala um faraldur ópíóíðafíknar er ljóst að vandinn fer vaxandi. 

Ríkisendurskoðun beindi eftirfarandi fjórum ábendingum til heilbrigðisráðuneytis:

  • Setja þarf stefnu og taka skýra forystu
  • Efla þarf upplýsingaöflun og yfirsýn
  • Bæta þarf aðgengi að meðferðum og þjónustu
  • Formfesta þarf kröfur og viðmið um viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn 

Sjá nánar skýrsluna Ópíóíðavandi: Staða ‒ stefna ‒ úrræði

 


Skýrslan var unnin samkvæmt nýju verklagi Ríkisendurskoðunar um hraðúttektir. Hraðúttektir eru upplýsandi og staðreyndamiðaðar skýrslur sem gefa þingi, stjórnsýslu, almenningi, fjölmiðlum og öðrum greinargóðar upplýsingar um tiltekin mál eða málefni sem eiga erindi við samfélagslega umræðu. 

 

Mynd með frétt