20.10.2025
Ríkisendurskoðandi minnir á að stjórnmálasamtökum og framboðum, sem taka þátt í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, ber að skila ársreikningi fyrir árið 2024 til Ríkisendurskoðunar í síðasta lagi 31. október nk., sbr. 9. gr. laga nr. 162/2006. Skil á ársreikningum fara fram í gegnum vefinn island.is. Sjá nánar í leiðbeiningum ríkisendurskoðanda um reikningshald stjórnmálasamtaka og skil þeirra á upplýsingum til Ríkisendurskoðunar.
Einnig er bent á að til þess að stjórnmálasamtök geti fengið fjárveitingu frá ríki eða sveitarfélögum þurfa þau að vera skráð hjá ríkisskattstjóra sem stjórnmálasamtök og hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart Ríkisendurskoðun. Enn fremur þurfa ársreikningar þeirra að hafa verið birtir af Ríkisendurskoðun.
Ríkisendurskoðandi mun birta ársreikningana eins fljótt og mögulegt er, en þó í fyrsta lagi degi eftir að skilafresti lýkur, þar á meðal upplýsingar um alla lögaðila sem hafa styrkt stjórnmálasamtökin, fjárhæðir slíkra framlaga og nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög yfir 300.000 kr.