Ríkisútvarpið ohf.

20.11.2019

Þessi skýrsla er unnin á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga eftir fyrirspurn frá mennta- og menningarmálaráðuneyti um fjárhagslega aðgreiningu almannaþjónustu og samkeppnisreksturs í bókhaldi Ríkisútvarpsins ohf

Ríkisútvarpið ohf. (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

  1. Fara verður að lögum
    Ríkisútvarpinu ohf. ber að uppfylla þær skyldur sem 4. gr. laga nr. 23/2013 leggur á félagið og stofna og reka dótturfélög fyrir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu. Lagaleg skylda félagsins gengur framar því óhagræði sem hugsanlega kann að hljótast af stofnun dótturfélaga.
     
  2. Verðmeta þarf réttinn til nýtingar á viðskiptaboðum
    Til að auka gagnsæi um aðskilnað fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og samkeppnisreksturs og tryggja að ríkisstyrkir renni ekki til annarrar starfsemi en almannaþjónustu þarf að verðmeta rými milli dagskrárliða RÚV ohf. sem nýtt eru undir auglýsingar og önnur viðskiptaboð. Í innra bókhaldi þarf síðan að tekjuog gjaldfæra þau með viðeigandi hætti, þ.e. til tekna hjá almannaþjónustu félagsins og gjalda hjá samkeppnishlutanum.
     
  3. Gæta þarf samræmis í eignum ríkisins
    Ríkisendurskoðandi telur að fjármála- og efnahagsráðuneyti eigi að fara með hlut ríkisins í Ríkisútvarpinu ohf. líkt og það geri með önnur félög sem ríkið á eignarhlut í enda sé æskilegt að skilja á milli eigendaábyrgðar og faglegrar ábyrgðar. Þá telur ríkisendurskoðandi rétt að skipa í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. á forsendum hæfisskilyrða 66. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 44. gr. laga um opinber fjármál. Mikilvægt sé að tryggja að a.m.k. hluti stjórnarmanna hafi sérþekkingu á fjármálum.
     
  4. Efla þarf fjárhagslegt eftirlit stjórnar Ríkisútvarpsins ohf.
    Efla þarf eftirlit stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. með fjárhag og rekstri félagsins og tryggja sjálfbæran rekstur. Mikilvægt er að stjórnin fái með reglubundnum hætti kynningu á heildarfjárhagsáætlun félagsins og fjalli um áætlaðar fjárfestingar, fjárstreymi og fjárhagsstöðu til viðbótar við rekstraráætlanir.

Áhrif Evrópulöggjafar á starfsemi Ríkisútvarpsins
Evrópulöggjöf og aðkoma Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) að fjármögnun og starfsemi Ríkisútvarpsins hafa haft mikil áhrif á þróun rekstrarforms og hlutverk þess eins og það er skilgreint í lögum. Raunar má segja að sú ákvörðun að Ríkisútvarpið skuli rekið sem opinbert hlutafélag sé afleiðing af eftirliti ESA. Stofnunin taldi m.a. að ótakmörkuð ábyrgð ríkisins á skuldbindingum RÚV fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð og að fjármögnun Ríkisútvarpsins, fyrir breytingu, veitti því efnahagslegt forskot á samkeppnisaðila.

Evrópulöggjöf veitir ákveðna undanþágu frá samkeppnis- og ríkisstyrkjareglum EES-samningsins þegar kemur að fjölmiðlum. Þær heimila að fjölmiðlar í almannaþágu séu fjármagnaðir með skattfé eða álagningu sérstakra gjalda en gera á móti þá kröfu að skilgreint sé með nákvæmum hætti hvað felist í slíkri fjölmiðlastarfsemi og að markvisst sé unnið að því að lágmarka áhrif ríkisstyrktrar fjölmiðlaþjónustu á samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Grundvallaratriði í því sambandi er að tryggja að ríkisstyrkir séu einungis nýttir í almannaþjónustu fjölmiðilsins en ekki til að fjármagna aðra starfsemi, s.s. samkeppnisrekstur sem ríkisstyrktum fjölmiðlum er heimilt að stunda. Auglýsingamarkaður er e.t.v. augljósasta dæmið. Lykilatriði í eftirliti með framangreindum atriðum er að þess sé gætt að fjárhagsbókhald ríkisfjölmiðla sé gagnsætt og að þar sé að fullu skilið milli almannaþjónustu og samkeppnisreksturs.

Bókhald Ríkisútvarpsins ohf. mætir kröfum ESA að því marki að tekjum af samkeppnisrekstri, beinum kostnaði og hlutdeild í sameiginlegum kostnaði er haldið aðgreindum. Fjármagnskostnaði er aftur á móti ekki skipt upp og ekki er gerð formleg arðsemiskrafa til samkeppnisrekstrarins. Þá eru verðmæti sem almannaþjónustan skapar með því að nýta rými á milli dagskrárliða undir auglýsingar og miðlun annarra viðskiptaboða ekki metin til fjár í bókhaldi félagsins en þau skapa samkeppnishluta félagsins möguleika til tekna. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að auglýsingatekjur eru bókfærðar hjá samkeppnishluta RÚV ohf. en endurgjald vegna auglýsingarýmis eru ekki færð á móti. Einungis er færð hlutdeild samkeppnisrekstrar í sameiginlegum kostnaði. Samkeppnishlutinn þarf því ekki að greiða að fullu fyrir réttinn til að koma viðskiptaboðum á framfæri. Ríkisendurskoðandi telur rétt að þessi verðmæti séu verðmetin og tekju- og gjaldfærð með viðeigandi hætti. Slíkt eykur gagnsæi og mætir betur þeim kröfum sem ESA gerir um fullkominn aðskilnað milli almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar.

Íslensk lög kveða á um stofnun dótturfélags
Ríkisútvarpið ohf. hefur ekki stofnað dótturfélög um annan rekstur en fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu þrátt fyrir lagalega skyldu þar um. Gildistöku umrædds lagaákvæðis hefur í tvígang verið frestað af löggjafanum, síðast til ársbyrjunar 2018. Samtöl Ríkisendurskoðunar við fulltrúa RÚV ohf. og mennta- og menningarmálaráðuneytis benda til þess að talið sé óþarft að stíga þetta skref þar sem aðskilnaður í bókhaldi félagsins eigi að nægja til að halda þessum þáttum starfseminnar aðgreindum. Lagaákvæðið gangi lengra en Evrópureglur mæla fyrir um og óvíst sé hvort einhver ávinningur fylgi því að stíga þetta skref. Það kunni jafnvel að leiða til óhagræðis fyrir félagið.

Ríkisendurskoðandi bendir á að ekki sé valkvætt að fara að lögum. Það er skylda RÚV ohf. að fara eftir þeim. Sé það aftur á móti vilji stjórnvalda að félagið raungeri ekki ákvæðið ber þeim að stuðla að því að það verði fellt brott úr lögum. Á meðan svo er ekki ber RÚV ohf. að uppfylla lagalegar skyldur sínar. Rekstur Ríkisútvarpsins ohf. Þegar Ríkisútvarpið ohf. var stofnað lá fyrir að þörf væri á auknu fjármagni til að reksturinn stæði undir sér. Þrátt fyrir það lágu engar áætlanir fyrir um hvernig ætti að tryggja sjálfbæran rekstur félagsins. RÚV ohf. hefur frá stofnun verið afar skuldsett og rekstrarafkoma almennt neikvæð. Handbært fé í lok árs 2008 var 184 m.kr. en hefur síðan 2012 verið nánast ekki neitt. Eigið fé dróst sömuleiðis saman. Við stofnun RÚV ohf. var það 879 m.kr. en lækkaði um 1.179 m.kr. á innan við tveimur árum. Eigið fé var neikvætt um 300 m.kr. í ársbyrjun 2009 en þá samþykkti ríkissjóður að breyta 563 m.kr. skuld í hlutafé til að bæta eiginfjárstöðu félagsins. Frá 2015 hefur eiginfjárhlutfall RÚV ohf. styrkst, einkum vegna sölu byggingaréttar á lóðinni við Efstaleiti, og var það 28,5% í árslok 2018. Athygli vekur að á sama tíma og félagið gekk á laust fé og skuldastaða þess var erfið jók það fjárfestingar sínar í búnaði og sýningarétti.

Á fyrstu rekstrarárunum lá fyrir að grípa þyrfti til langtímaaðgerða svo að forða mætti félaginu frá greiðsluþroti en ekki var brugðist við fyrr en félagið var komið í alvarlegan fjárhagsvanda. Fjárhagsleg endurskipulagning félagsins hófst árið 2014 en rekstrinum hefur fyrst og fremst verið komið á réttan kjöl með einskiptisaðgerðum á borð við niðurfellingu skuldar við ríkissjóð árið 2009 og með því að selja byggingarétt á lóð félagsins árið 2015. Árið 2018 var svo samið við LSR um að lengja í láni félagsins vegna lífeyrisskuldbindinga en afborganir af láninu höfðu verið íþyngjandi og m.a. fjármagnaðar með lántökum. Skilmálabreyting lánsins hafði jákvæð áhrif á greiðsluafkomu félagsins en eftir sem áður er greiðslustaða félagsins veik.

Afar mikilvægt er að tryggja ráðdeild í rekstri og öflugt fjárhagslegt eftirlit svo RÚV ohf. lendi ekki í alvarlegum greiðsluerfiðleikum að nýju. Fjármálastjórn félagsins hefur lengstum verið svipuð og um A-hluta ríkisstofnun sé að ræða og megináhersla lögð á að reksturinn rúmist innan fjárheimilda. Slíkt dugir ekki fyrir verulega skuldsett félag sem einnig þarf að standa undir fjárfestingum með framlagi á grundvelli þjónustusamnings auk sjálfsaflatekna.

Fjárhagslegt eftirlit
Stjórnskipulag RÚV ohf. er ólíkt því sem almennt einkennir opinber hlutafélög í eigu ríkisins. Fjármála- og efnahagsráðuneyti fer ekki með eignarhlut ríkisins í félaginu og kemur ekki að skipan stjórnar þess. Fyrir vikið verður aðkoma ráðuneytisins að fjárhagslegu eftirliti og aðhaldi með rekstri félagsins minni en almennt gerist. Að mati Ríkisendurskoðunar ætti fjármála- og efnahagsráðuneyti að fara með hlut ríkisins í RÚV og skilja þannig á milli eigendaábyrgðar og faglegrar ábyrgðar.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem fer með eignarhlut ríkisins, hefur faglegt eftirlit með RÚV og fylgist með því að ákvæði þjónustusamnings þess við félagið séu uppfyllt en vísar á stjórn félagsins varðandi fjárhagslegt eftirlit. Stjórnin er skipuð eftir hlutbundna kosningu á Alþingi en í lögum um félagið er ekki kveðið á um að tilnefnt sé í hana á grundvelli hæfni, menntunar eða reynslu líkt og gert er í lögum um opinber fjármál og á við um önnur opinber hlutafélög. Að mati ríkisendurskoðanda þarf að efla fjárhagslegt eftirlit stjórnar Ríkisútvarpsins 8 Ríkisútvarpið ohf. – Rekstur og aðgreining rekstrarþátta ohf. því þótt faglegt eftirlit sé mikilvægt verði að tryggja sjálfbærni rekstrar. Fundargerðir stjórnar benda til þess að fjárhagsleg umræða snúist að jafnaði einkum um rekstraráætlanir og daglegan rekstur en til að tryggja fullnægjandi eftirlit með starfsemi RÚV ohf. þarf að fara fram regluleg kynning og umfjöllum um fjárfestingaáætlanir, fjármögnun og sjóðstreymisáætlanir félagsins til viðbótar við rekstraráætlanir.

Lykiltölur

Tekjur í m.kr.
Gjöld í m.kr.
Starfsmenn
Aldur starfsmanna