Úttekt á Landhelgisgæslu Íslands

Skýrsla til Alþingis

23.02.2022

Ríkisendurskoðun hefur nú lokið stjórnsýsluúttekt á Landhelgisgæslu Íslands. Fulltrúar embættisins kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.

Mikil verðmæti eru fólgin í þeim mannauði og tækjum sem Landhelgisgæsla Íslands hefur yfir að ráða. Hvað snýr að skipum og loftförum stofnunarinnar á það ekki einungis við um þá fjármuni sem í þeim eru bundnir og til þeirra er varið, heldur einnig þau úrræði og gæði sem felast í getu þessara tækja og áhafna þeirra til að takast á við samfélagslega mikilvæg verkefni. Tækjakostur Landhelgisgæslunnar hefur þó ekki verið nýttur til fulls síðustu ár en í því samhengi vegast annars vegar á sjónarmið um að halda rekstrarkostnaði í lágmarki og hins vegar að fjárfestingar séu nýttar til fulls.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að skilgreina verði með afdráttarlausum og hlutlægum hætti öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslu Íslands og marka viðbúnaðargetu hennar bæði skýr og raunhæf markmið. Á grundvelli þeirra markmiða þarf að festa í sessi langtíma fjárfestingaáætlun um tækjakost stofnunarinnar sem þolir tímabundna ágjöf í efnahag ríkissjóðs.

Stjórnendur Landhelgisgæslunnar þurfa að kanna hvaða hagræðingarmöguleikar eru fyrir hendi í rekstrinum. Enn fremur leggur Ríkisendurskoðun til að dómsmálaráðuneyti og Landhelgisgæslan kanni hvaða ávinningur væri í því fólginn að nýta heimild til að útvista verkefnum sjómælinga og nýta það fé sem fer til reksturs sjómælingaskipsins Baldurs til að styrkja útgerð varðskipa.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf Landhelgisgæsla Íslands að hætta olíukaupum fyrir íslensku varðskipin í Færeyjum sem hafa verið stunduð til að komast hjá greiðslu virðisaukaskatts af eldsneytinu hér á landi. Þeir aðilar sem þiggja rekstrarfé sitt úr ríkissjóði geta ekki vísað til þess að slíkt stuðli að rekstrarhagkvæmni.

Þá leggur Ríkisendurskoðun til að tekið verði til skoðunar hvort gerð þjónustusamnings um jafn viðamikil verkefni og framkvæmd varnartengdra verkefna sé farsæl leið að því marki að skýr ábyrgðarkeðja í faglegum og fjárhagslegum skilningi sé tryggð.

Skýrslan hefur nú verið birt á vef Ríkisendurskoðunar og má nálgast hér

Mynd með frétt